140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, aðferðin sem hér er boðuð er ekki galin, ég vona að ég hafi ekki sagt það og ég held að ég hafi ekki gert það, (GBS: Ég sagði það.) já, það eru ekki mín orð. Hins vegar er hún, eins og ég ræddi um stóran hluta ræðu minnar, byggð á þeim gömlu gögnum sem heita tölfræði Hagstofunnar og er unnin upp úr gögnum eftir að allir eru búnir að skila skattframtali. Þau eru gömul eins og hér hefur verið talað um og það var gagnrýnt í skýrslu sérfræðinganna en jafnframt bent á leiðir sem væru til bóta til að vinna úr þeim. Við sem stöndum að þessum breytingartillögum teljum að verið sé að stíga skref til þess.

Hv. þingmaður spyr um aðferðir. Það eru kannski, við getum sagt prívatskoðanir sem ég hef látið mér detta í hug hvernig hægt væri að gera og hefði verið hægt að gera en í þær aðferðir er ekki farið nú. Það má segja að vissulega sé stigið skref í áttina til þess (Forseti hringir.) með hinu mikilvæga atriði, sem komið hefur hér fram, um afsláttinn hvað varðar vaxtakostnað vegna kvótakaupa, sem er ákaflega mikilvægt.