140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þá spyrja hv. þingmann um þau 4.500 tonn sem þarf að setja inn í pottana, hvort hann geti ekki verið sammála mér í því að miðað við einhverja aukningu sem getur orðið á næsta fiskveiðiári sé ekki sanngirni í öðru en að það gangi í eðlilegum hlutföllum, þ.e. að topparnir fái bara eitthvert fast hlutfall af því eins og þeir hafa fengið í stað þess að taka svona hátt hlutfall. Eins hvort 60/40 reglan við svo lágt viðmið eins og raun ber vitni sé ekki allt of ósanngjörn og að miklu betra sé að þetta sveiflist eins.

Mig langar líka að spyrja hv. þm. Kristján Möller: Ýsan var í 110 þús. tonnum, margir keyptu kvóta þegar ýsan var uppi, hún er komin núna niður í 45 þús. tonn. Hvar ætlar hv. þingmaður að setja þau mörk? Hvenær ætlar hann að byrja að skerða hjá þeim sem hafa keypt þennan kvóta og eru með miklar skuldbindingar, í hvaða marki ætlar hann að byrja að skerða ýsuna (Forseti hringir.) þegar hún fer vonandi að vaxa aftur?