140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður tekur hér til umræðu í andsvörum við mig að stærstum hluta og öllu leyti fiskveiðifrumvarpið sem enn er í nefnd. Þá kemur það faktískt í ljós, virðulegi forseti, að hv. þingmaður og ég erum sennilega sammála um að betra hefði verið að ræða þessi bæði mál saman á Alþingi, (Gripið fram í.) bæði saman, (Gripið fram í.) og þá gætum við verið að ræða þau mál sem hér eru undir. Í þessu seinna andsvari spyr hv. þingmaður fyrst og fremst um atriði sem eru í litla frumvarpinu. Það bíður umræðu þegar kemur að því. En ég er sannfærður um og mér finnst hv. þingmaður vera algjörlega að staðfesta það sem ég sagði í morgun eftir að stjórnarandstaðan vildi fá hitt frumvarpið á undan, að það hefði verið langbest fyrir þinglega meðferð að ræða þetta saman. Í raun og veru hefði mátt gera það, virðulegi forseti, ef þessi tvö frumvörp hefðu bara verið í einu frumvarpi en meira kaflaskipt, en þá hefði frumvarpið verið dálítið stórt.

Við ræðum þetta atriði síðar, virðulegi forseti, en (Gripið fram í.) það sem við erum að tala um núna er stærð á leigupotti, það er umræða sem við eigum (Forseti hringir.) eftir í nefndinni og hér þegar hitt frumvarpið kemur til umræðu.