140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:14]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi óska að ég gæti tekið undir það og sagt: Já, ég sé fyrir mér að krónan muni styrkjast mikið á næstu árum. Ég er hins vegar ekki allt of bjartsýnn á það. Það er hluti af efnahagserfiðleikum íslensku þjóðarinnar og öllum þeim hremmingum sem við lentum í haustið 2008 og sér ekki fyrir endann á í raun og veru.

Hv. þingmaður segir: Út af fyrir sig er það ánægjuleg breyting með afsláttinn sem gerður er á sérstaka veiðigjaldinu hvað varðar vaxtakostnað vegna kvótakaupa. Það er gott að hv. þingmaður komi fram og viðurkenni það og segir að það sé til bóta. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði, eitt mikilvægasta atriðið sem þarna kemur fram eins og ég sagði áðan, vegna þess að flóra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er svo ólík. Hvernig hún verður eftir fjögur eða fimm ár veit ég ekki. Ég er ekki viss um að eftir fimm ár þurfi að leggja á 70% sérstakt (Forseti hringir.) veiðigjald af gjaldstofni sem þá verður. Ég hygg að það eigi eftir að koma fram með frumvarp til breytingar á þeirri tölu (Forseti hringir.) til lækkunar þegar reikniverkið verður búið að nútímavæða og færa upp til nútímans í dag.