140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir ræðu hans. Þar nefndi hann stefnu okkar framsóknarmanna varðandi sjávarútvegsmál og ég hef ítrekað hlustað á hv. þingmann vitna í ályktanir flokksins varðandi sjávarútvegsmál en það virðist hins vegar vera eins og þingmaðurinn hafi ekki lesið niður síðuna á bls. 6 í ályktun síðasta flokksþings framsóknarmanna

Í 5. lið segir, með leyfi forseta:

„Veiðigjald/auðlindarentan sem sjávarútvegurinn greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstuðnings innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til þess landsvæðis þar sem veiðigjaldið verður til t.d. til atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi svæðis og hluti í ríkissjóð.“

Ég hef aflað mér upplýsinga um að nú þegar er verið að skattpína landsbyggðina ef horft er til þess hvað hún fær til baka úr opinberum sjóðum. Teljast íbúar landsbyggðarinnar ekki vera jafnréttháir (Forseti hringir.) og íbúar höfuðborgarsvæðisins að mati hv. þingmanns? Eru þeir ekki hluti af þjóðinni (Forseti hringir.) og eiga þeir ekki rétt á því að fá þetta veiðigjald til sín?