140. löggjafarþing — 111. fundur,  2. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ein af þeim umsögnum sem bárust nefndinni var og er frá Helga Áss Grétarssyni, sérfræðingi í Lagastofnun Háskóla Íslands. Ef ég veit rétt er Helgi sérfræðingur í auðlindalögfræði. Helgi setur fram hér í fimm liðum athugasemdir varðandi stjórnarskrárákvæði, ef ég hef skilið þetta rétt, þar sem hann veltir því fyrir sér hvort það kunni að vera í frumvörpunum einstakar greinar eða í heild verið að brjóta á stjórnarskrárbundnum rétti einstaklinga sem reka fyrirtæki.

Þar segir m.a. í 4. lið, með leyfi forseta:

„Lagt er til í frumvarpi til laga um veiðigjöld að stjórnvöldum sé falið mat við ákvörðun sérstaks veiðigjalds og þau hafi heimild til að veita undanþágu frá gjaldinu. Ég tel þessa skipan mála orka tvímælis með hliðsjón af 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.“

Ég veit að hv. þingmaður er löglærður, ég velti fyrir mér hvort hann hafi skoðað þetta eitthvað sérstaklega og geti tekið undir með þessum ágæta sérfræðingi að þarna kunni að vera pottur brotinn. Það er mjög mikilvægt að tekinn verði af allur vafi um hvort þessi frumvörp, líkt og öll önnur mál sem við fjöllum um hér á þingi, (Forseti hringir.) standist stjórnarskrá, hvort við brjótum þar að einhverju leyti ákvæði stjórnarskrárinnar.