140. löggjafarþing — 111. fundur,  2. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vísaði meðal annars til álits Helga Áss Grétarssonar í ræðu minni áðan þó að ég hafi ekki nafngreint hann frekar en aðra sem um þetta mál hafa fjallað. En það vekur athygli mína eins og hv. þingmanns að lögmenn og lögfræðingar sem um þetta mál hafa fjallað, sérstaklega þeir sem sérkunnáttu hafa á þessu sviði, hafa bent á nákvæmlega það atriði sem hv. þingmaður vekur athygli á, að þarna kunni að vera um brot að ræða, en við vitum að lögfræðingar eru oft varkárir við að fullyrða um svona enda verður seint fullyrt um álitamál sem ekki hafa beinlínis fengið úrlausn fyrir dómstólum. En lögfræðingar hafa varað við því að þarna kunni að vera um að ræða brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar sem varða annars vegar ákvæði um afturvirkni skattlagningar og hins vegar um framsal skattlagningarvalds og reyndar líka það sem hér er vísað til, að skýrleikinn sé ekki nægur. Ég vísaði til þess í ræðu minni að dómstólar væru á seinni árum farnir að gera stífari kröfur í þessum efnum.

Með breytingum á stjórnarskránni árið 1995 má líka líta svo á að ákvæði stjórnarskrárinnar um þessi atriði séu skýrari, kröfurnar meiri. Ég held því að þessar athugasemdir frá Helga Áss Grétarssyni, Lex lögmannsstofu, Bonafide lögmönnum og fleirum sem um þetta mál hafa fjallað séu vel þess virði að skoða nánar. Athugasemdirnar eru ágætlega rökstuddar og eins og ég sagði í ræðu minni tel ég að í nefndaráliti meiri hlutans, þar sem vissulega er vikið að þessum álitaefnum, sé skautað dálítið létt yfir vandamálin sem þarna eru fyrir hendi. Þau eru afgreidd (Forseti hringir.) með frekar grunnum hætti, ef svo má segja.