140. löggjafarþing — 111. fundur,  2. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka líka fyrir þessa spurningu. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að þessi atriði séu skoðuð nánar og ég tel, eins og ég benti sérstaklega á í niðurlagi ræðu minnar, að hv. atvinnuveganefnd verði að skoða þessi mál betur og fá til þess sérfræðilega ráðgjöf vegna þess að þarna er um að ræða verulega mikilvæg álitaefni. Þetta eru álitaefni sem eru þess eðlis að það er ekki 100% hægt að komast að niðurstöðu fyrir fram um hvort þetta stangist á við stjórnarskrá eða ekki, en með sérfræðilegri ráðgjöf er hægt að vega og meta hvort líkurnar eru meiri eða minni. Miðað við þau álit sem hér liggja fyrir eru meiri líkur en minni á því að þetta rekist á ákvæði þessa frumvarps og ákvæði stjórnarskrárinnar. (Forseti hringir.) Það er hvorki þinginu né stjórnvöldum til sóma að afgreiða frá sér löggjöf án þess að skoða (Forseti hringir.) svona mál í þaula.