140. löggjafarþing — 111. fundur,  2. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Jón Bjarnason vorum alls ekki sammála um frumvörpin sem hann lagði fram á síðasta þingi en mér heyrist þó að við höfum að mörgu leyti áhyggjur af sömu þáttum varðandi þau frumvörp sem hér liggja fyrir. Þau eru vissulega frábrugðin þeim frumvörpum sem hv. þingmaður lagði fram þegar hann var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég er þeirrar skoðunar að þau hafi ekki verið góð og bakka ekki með þá afstöðu mína, en ég held að þau frumvörp sem eftirmaður hv. þingmanns hefur lagt hér fram séu síst betri og jafnvel verri að sumu leyti.

Varðandi það sem hv. þm. Jóni Bjarnason spyr um í sambandi við byggðirnar og áhrifin vítt og breitt um landið held ég að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af afleiðingum þessara tveggja frumvarpa, bæði veiðileyfagjaldsfrumvarpsins og frumvarpsins um stjórn fiskveiða á landsbyggðinni. Ég held að það sé ekki tilviljun að bæði sveitarstjórnarmenn og fyrirtæki vítt og breitt um landið hafa mótmælt þessu frumvarpi harkalega og sérfræðingar, eins og hv. þingmaður vísar til. Þeir hafa haft miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þessi frumvörp kunna að hafa vítt og breitt um landið.

Ég held að þær áhyggjur séu réttmætar. Ég held að það sé rétt að kalla þetta skatt, eins og gert er í því áliti sem hann vísar til. Ég held að það sé ekki hægt að gefa þessu neitt annað nafn. Í þeim lögfræðilegu álitsgerðum sem ég hef vísað til hér fyrr í ræðum mínum er tekinn af allur vafi um að hér er um að ræða skatt og ekkert annað, hvað sem líður tali um endurgjald fyrir afnot af sameign þjóðarinnar og hvaða svo sem rökstuðning menn nota er þetta í öllum lagalegum (Forseti hringir.) og stjórnskipulegum skilningi skattur og miðað við hvernig hann dreifist á landið (Forseti hringir.) er auðvitað hægt að kalla hann landsbyggðarskatt.