140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

skuldamál heimilanna og umboðsmaður skuldara.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um hvað sé að frétta af vinnu við nýjar aðgerðir vegna skuldamála heimilanna. Komið hefur fram í fjölmiðlum tiltölulega nýlega að á vettvangi ríkisstjórnarinnar sé að störfum ráðherrahópur sem sé að undirbúa einhvers konar viðbótarviðbrögð, ef ég hef skilið það rétt, vegna þeirra dóma sem gengið hafa í gengislánamálum að undanförnu. Lítið hefur spurst annað en það sem fram kom undir lok síðustu viku að umboðsmaður skuldara virðist gera ráð fyrir því að línur muni skýrast eitthvað í þessum efnum þegar nýir dómar falla í fordæmisgefandi málum á næstu vikum eða mánuðum. Það er í sjálfu sér algerlega óháð þeirri vinnu sem kynnt var af hæstv. forsætisráðherra að stæði yfir á vegum þessarar ráðherranefndar.

Auk þessa vil ég bera það undir hæstv. forsætisráðherra hvernig hún telur að tekist hafi til með stofnun umboðsmanns skuldara sem veittar eru um þúsund milljónir í á hverju ári af fjárlögum til að sinna skuldamálum. Helst fréttist það af þeirri stofnun að þar séu langar raðir og allt gerist afskaplega hægt. Hvað telur hæstv. forsætisráðherra rétt að halda lengi áfram með óbreyttu sniði hjá þeirri stofnun sem kostar milljarð á ári þegar úrræðin sem til boða standa skila ekki meiri árangri en raun ber vitni? Er það ekki staðreynd að of miklar væntingar voru bundnar við stofnun þessa embættis?