140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

skuldamál heimilanna og umboðsmaður skuldara.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður tekur upp skuldavanda heimilanna og spyr hvort eitthvað nýtt sé að frétta af þeim málum. Það hefur tekið nokkuð langan tíma að fara yfir þessa stöðu, það skal viðurkennt, enda ákvað ríkisstjórnin að fara yfir hana fyrir nokkrum vikum síðan í raun alveg frá grunni, skoða vel þær tillögur sem komið hafa fram um almennar niðurgreiðslur og síðan að skoða málin út frá skýrslu til dæmis Seðlabankans um vandann, hvernig hann blasti við eftir þær aðgerðir sem farið hefur verið í. Að þeirri skoðun frágenginni er ljóst að stjórnarflokkarnir munu fyrst og fremst horfa til greiðsluvandans, til hvaða aðgerða hægt er að grípa til fyrir þá verr settu. Þá koma enn og aftur upp þessi lánsveð sem virðist taka eilífðartíma að fá niðurstöðu í þar sem haldnir hafa verið margir fundir með lífeyrissjóðunum án þess að náðst hafi viðunandi árangur.

Við erum líka að skoða hvort hægt sé að mæta þessum greiðsluvanda annaðhvort í gegnum vaxtabætur eða barnabætur nema hvort tveggja sé og er ekki komin niðurstaða í það mál. En ég held að það sé alveg ljóst að menn hafa fallið frá því að skoða nokkuð sem heitir almenn niðurfærsla. Er það ábyggilega í þriðja eða fjórða sinn sem málið er skoðað á kjörtímabilinu og fyrir liggur nýleg skýrsla frá fjármálaráðuneytinu sem sjálfstæðismenn báðu um. Hún gefur sannarlega ekki væntingar um að skynsamlegt sé eða eðlilegt að fara í almennar aðgerðir.

Varðandi gengislánin hafa þau líka tekið tíma en vonir eru bundnar við að hægt sé fyrir réttarhlé að setja tíu eða tólf prófmál fyrir dómstóla en ég sé ekki að hægt sé að vænta nokkurrar niðurstöðu fyrr en með haustinu. (Forseti hringir.) Nú er tími minn búinn en ég skal svara spurningu varðandi umboðsmann skuldara á eftir.