140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

kostnaður við almenna niðurfærslu lána.

[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg með ólíkindum hvaða orð hv. þingmaður getur látið sér um munn fara í ræðustólnum og hversu ómaklegar árásir hann er sífellt með á ríkisstjórnina. Hér lætur hann að því liggja að hann telji að við viljum að hagur íslensku þjóðarinnar verði sem verstur. (SDG: Ég sagði …) Er hægt virkilega að halda slíku fram, hv. þingmaður? Það er bara ósvífni úr ræðustól að hv. þingmaður leyfir sér að halda slíku fram. Auðvitað hefur verið haldið á þessu máli þannig að það skilaði Íslandi sem bestri niðurstöðu og ég er að vona að dómstólaleiðin geri það, en ég sagði að við skyldum takast á um það hvor leiðin hefði verið skynsamlegri þegar við fáum þá niðurstöðu.

Varðandi bankana og mistök, eins og hv. þingmaður orðaði það, sem gerð hafa verið varðandi endurskipulagningu á bönkunum vísa ég því algjörlega til föðurhúsanna. Við komum meira að segja í veg fyrir að hundruð milljarða færu inn í bankana úr ríkissjóði með skynsamlegri leið sem þar var valin. Nú stöndum við frammi fyrir því að við getum jafnvel farið í fjárfestingaráætlanir, (Forseti hringir.) lækkað atvinnuleysi verulega og bætt hagvöxt kannski um 2% með því að við nýtum peningana sem við munum fá í arð úr bönkunum, því verður skilað aftur (Gripið fram í.) sem við létum í bankana, bæði því sem viðkemur sölu og arði úr bönkunum. Þetta eru því fráleitar (Forseti hringir.) fullyrðingar hjá hv. þingmanni.