140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

frumvörp um sjávarútvegsmál.

[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hvað er það sem hv. þingmaður kallar atlögu að íslenskum sjávarútvegi? Hvað er ríkisstjórnin að gera í sjávarútvegsmálum? Hún er að reyna að ná meira jafnræði í greininni, hún er að reyna að tryggja að þjóðin fái eðlilegan arð af greininni á sama tíma og sjávarútvegurinn hafi eðlileg rekstrarskilyrði. Þannig höfum við unnið.

Sumir ganga algjörlega grímulausir erinda sjávarútvegsins. Mér finnst ágætt að hv. þingmaður lesi ræður mínar en ég kannast ekki við öll þau orð sem hann nefndi. Það mætti líka rifja upp ýmislegt sem sjávarútvegurinn hefur gert í árásum sínum á þessa ríkisstjórn, rétt kjörna ríkisstjórn sem vinnur samkvæmt þeim stjórnarsáttmála sem hún lagði upp með. Þær aðgerðir sem Landssamband íslenskra útvegsmanna er til dæmis að fara í núna eru að mínu viti ólöglegar og ekkert annað en ósvífnar aðgerðir sem eiga auðvitað ekki að líðast. Ríkisstjórnin hefur lagt sig fram við meðferð málsins á þingi að reyna að ná sátt um þessi mál [Hlátur í þingsal.] en að halda um leið prinsippum sínum (Gripið fram í.) sem hún hefur sett sér, þ.e. að fá meira jafnræði í þessa grein og að þjóðin fái eðlilegan arð af sjávarútveginum. Það er kominn tími til þess. Þannig höfum við verið að vinna og á engan annan hátt.

Ég held að sjávarútvegurinn sem núna mokar peningum í áróður og auglýsingar gegn ríkisstjórninni ætti að segja okkur hvaðan hann fær peningana í þetta og hvort hann telji það greininni til sóma að fara núna fram (Forseti hringir.) með ólöglegar aðgerðir, aðgerðir sem brjóta gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, til að reyna með ósvífnum hætti að ná öllu sínu fram. Þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn stjórnuðu (Forseti hringir.) gátu þessir aðilar verið þar inni á teppi og fengið það sem þeir vildu. En þeir fá það ekki hjá þessari ríkisstjórn, (Forseti hringir.) hún horfir á heildarhagsmuni en ekki sérhagsmuni.