140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

ákvörðun LÍÚ um hlé á veiðum.

[11:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta svar. Ég er algerlega sammála því að ég tel að fara þurfi mjög rækilega yfir stöðuna í þessu efni. Það er áhyggjuefni þegar menn grípa til aðgerða sem ég tel að mjög margir séu sammála um að séu ólögmætar í þessu sambandi. Þetta er pólitísk aðgerð sett fram í því augnamiði að knýja stjórnvöld til að gera ekki eitthvað sem þau áforma. Það er bersýnilegt að það er vopnið sem útgerðarmenn ætla sér að nota og spurning hvort sá kvóti sem ella hefði verið veiddur þessa vikuna væri betur kominn hjá einhverjum öðrum en er í dag. Ég tek undir þetta.

Ég tel líka, eins og ég vakti máls á, að það sé áhyggjuefni að kjaradeila sjómanna og útgerðarmanna er hjá sáttasemjara. Það hlýtur að hafa einhverja þýðingu í þessu sambandi að grípa til aðgerða af þessum toga. Það hlýtur líka að gera alla umfjöllun um málið á vettvangi Alþingis erfiðari, að vinna málið áfram undir, vil ég segja, hótunum af hálfu útgerðarmanna eins og staðan er í dag.