140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

ákvörðun LÍÚ um hlé á veiðum.

[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir og ítreka að hér er ekkert um annað en pólitíska aðgerð að ræða og það ólögmæta. Og þegar maður veltir fyrir sér hvaða fordæmi þetta gefur — af því að aðilar hafa viðurkennt að ekki beri að beita svona aðgerðum til að ná hagsmunum sínum fram, og kveðið er á um það í 17. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur.

Hvað mundi til dæmis gerast ef Alþýðusamband Íslands færi að beita svona aðgerðum af því að það væri ósátt við einhverjar aðgerðir sem ríkisstjórnin væri að fara í á Alþingi, nauðsynlegar aðgerðir í kringum fjárlög o.s.frv.? Það mundi enda með ósköpum ef þetta væru samskiptareglur sem taka ætti upp á vinnumarkaðinum. Ég lít þetta mál mjög alvarlegum augum og ég mun ræða það í ríkisstjórninni. Ekki bætir það síðan stöðuna að kjaradeila sjómanna er hjá ríkissáttasemjara.

Þetta er mjög ógeðfelld aðferð sem hér er beitt, ég verð að segja það, og ég vona að Landssamband íslenskra útvegsmanna sjái að sér og hætti að beita ólöglegum aðgerðum í baráttu sinni.