140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Staðan í stórum málum ríkisstjórnarinnar er einfaldlega á þá lund að þar er mikil vinna eftir. Ríkisstjórnin er ekki eingöngu í stríði við stjórnarandstöðuna á þingi út af þessum málum. Hæstv. ríkisstjórn er í stríði við samfélagið. Hún er í stríði við hagsmunasamtök launafólks, hún er í stríði við atvinnurekendur, hún er í stríði við alla umsagnaraðila í sjávarútvegsmálum.

Það sama á við um rammaáætlun sem hv. atvinnuveganefnd er varla farin að fjalla um. Vinnan er eiginlega ekkert farin af stað. Við erum búin að fá nokkra gesti. Tíminn fer allur í sjávarútvegsmálin og það er ekki stjórnarandstaðan sem er að draga lappirnar. Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki komið sér saman um það hvernig þeir vilja hafa þessi mál.

Ég skora á virðulegan forseta (Forseti hringir.) að setjast nú niður með ríkisstjórninni og hvetja hana til að klára (Forseti hringir.) þessi mál þannig að þingstörf geti farið að ganga eðlilega fyrir sig um þau stóru mál sem hún vill taka á dagskrá.