140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:19]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er orðið svolítið raunalegt, og eiginlega farið að storka vitsmunum venjulegs fólks, að hlusta á þessa föstu dagskrárliði í upphafi hvers þingfundar þegar hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir byrjar alltaf sömu ræðuna aftur og aftur með fyrirspurn til forseta um hvernig framhald þingfunda verði.

Það er heldur ekki rétt, sem hér er haldið fram, að ríkisstjórnin sé í stríði við stjórnarandstöðuna og í stríði við hagsmunaaðila. Það er akkúrat öfugt. Stjórnarandstaðan er í stríði við stjórnarmeirihlutann og það stríð hefur staðið linnulaust í allan vetur. Hagsmunaaðilar eru líka í sama stríði, þetta stríð er háð alls staðar.

Vandamálin hér eru þau að stjórnarandstaðan tefur öll mál sem koma til þingsins og heldur því svo gegn ríkisstjórninni að mál skulu ekki þokast, með sífri og voli sem minnir helst á barnaskóla- og leikskólabörn. Hún gengur þar með erinda hagsmunaaðila (Forseti hringir.) á kostnað almannahagsmuna. Það er það sem er að gerast í þessum þingsal dag eftir dag.