140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sem talaði á undan mér fór yfir það hvernig samráð hefur verið viðhaft varðandi þær breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem nú eru til umræðu á Alþingi og ég þarf ekki að eyða tíma í það. Hins vegar segjast þingmenn stjórnarliða fara fram með réttlæti og almannahagsmuni að leiðarljósi. Því er haldið fram að þessi mál séu borin fram vegna þessara tveggja mikilvægu atriða, réttlætis og almannahagsmuna. Ég er algerlega ósammála því að það sé í samræmi við almannahagsmuni að gjörbylta sjávarútvegskerfi okkar. Ég er ósammála því að almannahagsmunir knýi á um þessar breytingar.

Ég vil að hér séu stöndug og sterk sjávarútvegsfyrirtæki. Ég vil hafa sterk fyrirtæki sem fjárfesta, sem byggja upp fyrirtæki sín, sem ná fram mikilli hagræðingu. Ég vil sjávarútveg án ríkisstyrkja. Ég vil sterk sjávarútvegsfyrirtæki sem skila (Forseti hringir.) miklum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið. Það eru almannahagsmunir.