140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Sagt hefur verið að þetta veiðigjald, veiðiskattur eða landsbyggðarskattur eins og þetta augljóslega er, sé nauðsynlegt og nauðsynlegt að hafa það svona hátt vegna þess að ástand þjóðarbúsins er eins og það er. Þá vekur athygli manns að búið er á sama tíma að halda blaðamannafundi og kynna í hvað eigi að eyða þessum peningum fyrir fram. Það er í hin ýmsu samgönguverkefni og fullt af ágætum verkefnum en það á ekki, eins og ég sé þetta, að nota þá fjármuni sem eiga að fást með þessari auknu skattheimtu til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, ég get ekki séð það.

Spurning mín er því þessi: Þegar þetta partí ríkisstjórnarflokkanna er búið, þegar búið er að skattleggja sjávarútvegsfyrirtækin undir drep og takmarka þannig tekjur ríkissjóðs til framtíðar, því að þau munu skila verri afkomu, þá koma aðrar kosningar. Þá þarf væntanlega að lofa einhverju fleiru en þeim (Forseti hringir.) stóru verkefnum sem þessir hv. flokkar lofuðu í þessari umferð. Hvað verður þá? Hvað á þá að skattleggja?