140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eflaust misjafnt eftir sveitarfélögum hvernig þetta kemur við þau en flest þeirra munu, og það sést á athugasemdum sem koma inn, verða fyrir töluvert miklu höggi. Það sem gleymist kannski líka í þessu er að sveitarfélögin eru vitanlega misstór og missterk og fyrirtækin eru mismiklir burðarásar í samfélögunum, það hefur þar af leiðandi mismunandi áhrif þannig að ekki er óeðlilegt að það sé kannski — ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður var að fara áðan en ef ég skil það rétt þá sé einhver misskilningur í útreikningum frá því bæjarfélagi. Það hefur líka komið fram — mig minnir að það hafi verið Tálknafjarðarhreppur frekar en einhver annar sem var búinn að reikna út hvað þeir fengju og hvað þeir þyrftu að gefa og þar var nú býsna mikill munur.

Varðandi tölur og Arion banka, ég get engu svarað um það hvað er í bókum þess banka enda fá þingmenn ekkert að vita hvað er að gerast í þessum fjármálaheimi, virðist vera. Ég get þó sagt að mín skoðun er sú að ástæðan fyrir því að ekki hefur verið meira um afskriftir í sjávarútveginum en sem þar koma fram er sú að þetta eru vel rekin fyrirtæki. Þetta eru fyrirtæki sem menn eru búnir að vanda sig við að reyna að reka. Þau eru skuldsett en þau geta aflað sér tekna og það er þess vegna sem ekki er búið að afskrifa hjá þeim því að fjármálastofnanirnar horfa bara á ársreikningana í fyrirtækjunum. Uppgjörin segja: Bíddu, þið skuldið mikið en þið hafið öll færi á að vinna og borga þessar skuldir. Þess vegna eru fjármálastofnanir að gagnrýna þessi frumvörp af því að þær sjá það að nái þau fram að ganga munu þau fyrirtæki sem þær ætluðu að láta borga sínar skuldir, þeim mun þá ekki takast að gera það miðað við að þessi frumvörp nái fram að ganga. Þannig skil ég þessa mynd.