140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins til að fyrirbyggja misskilning er ekki neinn misskilningur í gögnunum sem komu frá því ágæta bæjarfélagi Bolungarvík, alls ekkert svoleiðis. Þeir settu mál sitt vel fram en ég tek það sem dæmi að ekki var rætt um þann plús sem kemur til dæmis út af línuívilnuninni, og það á að sjálfsögðu við um fleiri staði sem njóta þess í línuívilnun.

Aðeins varðandi afskriftareikninginn og það sem hv. þingmaður ræddi dálítið um í ræðu sinni og ég var með hér í stuttu andsvari. Það sem ég sagði og ætla að hnykkja betur á þegar ég hef aðeins meiri tíma — nú, það er bara ein mínúta já — að það hefur verið lagt í afskriftareikning, og það kom fram á fundum nefndarinnar, en málin eru ekki fullkláruð. Ekki er búið að færa það úr afskriftareikningnum til fyrirtækjanna sem tölu til að fella niður. Þetta á við vegna ólöglegra gengislána. Mörg sjávarútvegsfyrirtæki munu fá endurgreiðslur eða vaxtaniðurfellingu og tölu til baka vegna þeirra dóma. Það kom fram á fundum í nefndinni að þessi mál eru ekki búin, þau hafa jafnvel stoppað, bankarnir eru að bíða eftir að sjá hvaða fiskveiðistjórnarkerfi verður, það er ekki ólíklegt.

Þetta nefni ég, virðulegi forseti, vegna þess að það eiga eftir að koma greiðslur sem munu lækka vaxtaberandi kostnað sjávarútvegsfyrirtækja í landinu.