140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var líklega Vesturbyggð sem ég ætlaði að vitna í áðan í andsvari við hv. þm. Kristján L. Möller en sagði óvart Tálknafjarðarhreppur. Ég er alveg klár á því, já, ég segi það bara að ég er alveg klár á því að sveitarfélagið mun ekki ráða við það að fá á sig þessa miklu skattheimtu, að 300 millj. kr. verði færðar suður til Reykjavíkur. Þetta rennir líka stoðum undir það sem ég vitnaði í áðan um það hvað það er vitlaust gefið þegar kannski tvær af hverjum þremur krónum sem verða til á landsbyggðinni verða eftir í Reykjavík. Þetta er bara dæmi um að landsbyggðin er enn sérstaklega skattlögð.

Ég sagði áðan frá nýrri skýrslu sem Byggðastofnun var að gefa út. Þar er talað um nokkur byggðarlög á landinu, m.a. Vesturbyggð, um fólksfækkun og ýmislegt annað. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sums staðar eru stór sjávarútvegsfyrirtæki burðarás í atvinnulífi svæðisins. Nefna má Odda í Vesturbyggð, Þórsberg á Tálknafirði, Ramma í Fjallabyggð, Hólmadrang á Hólmavík“ o.s.frv.

Við erum að horfa á nákvæmlega þetta sem þau í Vesturbyggð eru að vara við. Ef það er hoggið í þessi fyrirtæki sem eru burðarásar í samfélaginu munu sveitarfélögin ekki þola það. Það er ekki verið plata neitt, menn eru bara að horfa á þær tölur sem verða til í samfélaginu. Þetta eru samfélög sem byggja á útgerð, byggja á fiskvinnslu. Ef til stendur að skattleggja sérstaklega fyrirtæki sem eru kannski þegar í vanda með að reka sig í því umhverfi sem nú er getur það vitanlega ekki gengið upp. Það að ætla svo að segja fólki að aukinn skattur á útgerðina (Forseti hringir.) í formi veiðigjalds flýti vegasamgöngum og einhverju slíku er bara algjört rugl.