140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Undirstaða þessa máls og þeirra deilna sem staðið hafa um það árum saman er vitanlega sú tilfinning almennings að það sé ójafnt gefið og ósætti við þá staðreynd að ein atvinnugrein í landinu hefur haft forréttindaaðgang að þjóðarauðlind og nýtt hana til hins ýtrasta án þess þó að arðurinn af nýtingu þeirrar auðlindar hafi skilað sér í sanngjörnum og réttlátum mæli út í samfélagið sjálft, inn í lífæðar þess. Greinin hefur verið rekin á þeirri forsendu að gróðanum hefur verið rakað saman, hann hefur vissulega komið sér vel fyrir þau fyrirtæki sem eru vel rekin en hann hefur ekki skilað sér með þeim hætti sem eðlilegt gæti talist út í íslenskt samfélag.

Við sjáum núna þegar við reiknum út hvaða tekjur ríkissjóður, samfélagssjóðurinn, gæti haft af umframarðinum sem kemur inn í gegnum greinina. Við sjáum af hvaða fjármunum íslenskt samfélag hefur orðið á undanförnum áratugum, á sama tíma og við höfum séð síðustu nokkur ár mikinn gróða og hagnað af útgerð og vinnslu. Þá rennur okkur auðvitað til rifja að sjá þá byggðaröskun og þá miklu lífsháttabreytingu sem þessu kerfi hefur fylgt undanfarna þrjá áratugi. Það má með sanni segja að hér í landinu séu sum byggðarlög í sannkölluðum sárum eftir þetta kerfi. Við stöndum því frammi fyrir því núna að reyna að leiðrétta skekkjurnar í kerfinu og tryggja það að arðurinn af veiðunum komi í ríkara mæli inn til samfélagsins. Það er erfitt að fella einhvern salómonsdóm í því hvaða leið sé farsælust, hvað sé réttlátast, en sú leið sem hér er lögð til í sambandi við veiðigjaldafrumvarpið gengur þó að minnsta kosti út á það að tekið sé gjald af þeim umframarði sem hefur skapast í greininni þegar búið er að draga frá allan rekstrarkostnað og taka meira að segja tillit til meðal annars greiðslu tekjuskatts og greiðslu almenns veiðigjalds. Þá verður einhver mismunur til, einhver afgangur sem við getum kallað umframarðinn sem árgreiðsluaðferðin mælir og af þeim umframarði er tekið gjald.

Síðan ganga breytingartillögur atvinnuveganefndar út á það líka að taka auk þessa tillit til skuldastöðu einstakra fyrirtækja með ákveðinni aðferð sem lögð er til og einnig að veittur sé afsláttur af veiðigjaldi og búin til fimm ára aðlögun til að tryggja að yfirfærslan yfir í þetta gjaldtökukerfi verði sem sársaukaminnst fyrir útgerðirnar.

Sá vilji sem fram hefur komið í breytingartillögunum lýtur meðal annars að því að sum útgerðarfyrirtæki á Íslandi hafa upplýst það fyrir atvinnuveganefnd og lagt fram gögn sem sýna að þau eru mjög illa skuldsett og líkleg til þess að óbreyttu að verða gjaldþrota vegna skuldastöðunnar. Sum eru þannig stödd að þau hanga á brúninni og við viljum auðvitað forða því að þau falli fram af vegna breytinganna og frekar gefa þeim kost á að standast breytingarnar en síðan verða þau auðvitað að reka sig á sömu forsendum og aðrir. En það er augljóslega vilji til staðar til að taka tillit til og reyna að forða því að breytingarnar einar og sér verði til þess að fyrirtækin fari um koll.

Útgerðum landsins er því gefið mjög rúmt svigrúm til að laga sig að nýju veiðigjaldi á næstu fimm árum með breytingartillögum meiri hluta atvinnuveganefndar Alþingis við frumvarp um veiðigjöld. Auk almenns afsláttar og aðlögunar er tekið tillit til skuldastöðu einstakra fyrirtækja vegna kvótakaupa á tímabilinu 2001–2011. Auðvitað má segja almennt séð að það sé ekki góð aðferðafræði að gefa afslátt á opinberum gjöldum á grundvelli skuldastöðu einstakra fyrirtækja. Ég get almennt séð tekið undir það sjónarmið. Ég tel hins vegar að í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum fengið um skuldastöðu mikilvægra fyrirtækja í einstökum byggðarlögum sé óhjákvæmilegt að fara þá skuldaívilnunarleið sem lögð er til í breytingartillögunum í ljósi þess að þá er um að ræða afmarkað tímabil og að uppfyllt séu ákveðin skilyrði þannig að þar með sé þá dregið ákveðið strik í sandinn gagnvart þeim sjávarútvegsfyrirtækjum sem að öðrum kosti stæðu frammi fyrir gjaldþroti með tilheyrandi atvinnu- og byggðaröskun á svæðum sem nú þegar standa höllum fæti.

Ég ítreka líka að ég lít svo á að með þessu sé verið að draga þetta strik í sandinn í eitt skipti fyrir öll í tilefni af því að verið er að gera viðamiklar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í heild sinni og gjaldtökunni, að það gefi okkur tilefni til að veita þessa ívilnun og þessa aðlögun aðeins til fimm ára en að ekki verði framhald þar á.

Að gera hvort tveggja, lækka veiðigjald á næstu fimm árum og taka jafnframt tillit til skuldsetningar einstakra fyrirtækja, er mjög mikill afsláttur frá upphaflegum áformum og mun þýða að minnsta kosti 10 milljarða lækkun ríkistekna af veiðigjaldi á næstu fimm árum. Það er mjög stór ákvörðun þegar ríkissjóður stendur höllum fæti og þarf mjög á auknum tekjum að halda. Ég hefði talið nægilegt að fara aðra hvora leiðina til að mæta sjónarmiðum og ábendingum um aðlögunarþörf og/eða skuldastöðu lítilla eða skuldugra fyrirtækja en ætla engu að síður að fallast á að þessi leið verði farin af þeim ástæðum sem ég rakti áðan. Þetta mun kosta 10 milljarða af tekjum til ríkissjóðs á næstu fimm árum á sama tíma og gróði af fiskveiðum er í sögulegu hámarki og staða ríkissjóðs, eins og ég segi, tæpari en oft áður.

Þetta er meginafstaða mín til þessa máls sem ég vildi gera grein fyrir. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta er nokkuð sem ég lít svo á að sé einskiptisaðgerð á sanngirnisforsendum, þ.e. að hér er verið að innleiða mjög veigamiklar breytingar sem að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á rekstrarskilyrði og stöðu sjávarútvegsfyrirtækja og þar með byggðarlaganna um land allt.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri, frú forseti, en áskil mér að sjálfsögðu rétt til að koma inn í umræðuna á síðari stigum.