140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu sem túlkaði hennar sjónarmið sem eru ekki alveg í takti við mín. Mig langar til að spyrja hana hvort hún telji að forsenda arðsemi af auðlindinni sé arðsemi fyrirtækjanna sem stunda sjávarútveg, þ.e. að ef þau eru ekki arðsöm, græða ekki þannig séð, verði enginn hagur af auðlindinni. Það er fyrsta spurning.

Önnur spurning: Telur hv. þingmaður ekki nauðsynlegt að reyna að stuðla að arðsemi í útgerð eins og mögulegt er af þessari ástæðu?

Þriðja spurning: Í öllum rekstri er öryggi einn þáttur og hann endurspeglast í ávöxtunarkröfu og því hversu auðvelt menn eiga með að fá fé. Þetta kerfi á að renna út eftir 20 ár, þ.e. framsal og annað slíkt og enginn veit hvað tekur við. Eftir fimm ár eru 15 ár eftir og svo nálgumst við alltaf þetta „deadline“. Hvernig telur hv. þingmaður það hafa áhrif á öryggi og ávöxtunarkröfu í sjávarútvegi?