140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:50]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er ekki búið að ráðstafa fjármununum, það eru engar skurðgröfur farnar af stað enn þá (PHB: Loforðin komin.) en menn eru auðvitað farnir að teikna framtíðina í ljósi þeirra spádóma sem fram undan eru um aflaaukningu og þeirra áforma sem hér liggja á borðinu um veiðigjaldið.

20 ára framtíðarsýn er mikið rekstraröryggi, meira rekstraröryggi en nokkur önnur atvinnugrein í landinu státar af, að eiga þess kost að fá að gera samninga um nýtingu auðlindar eða þess viðfangs sem reksturinn byggist á, eins og fiskveiðarnar eru í tilfelli útgerðarinnar, 20 ára framtíðarsýn, (PHB: … eftir 15 ár?) það er það sem býðst og það er meira en aðrar atvinnugreinar eiga kost á. Ég mundi segja að það væri vel í lagt.

Hins vegar getum við spurt hvert arðurinn af þessum fiskveiðum sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni hafi skilað sér. (Forseti hringir.) Hefur hann skilað sér inn í samfélagið eins og ætlast mætti til? Þar erum við ekki sammála.