140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:55]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara taka líkingu af landbúnaðinum. Markmiðið með að halda mjólkurkúna er að mjólka hana. Það á að sjálfsögðu ekki að blóðmjólka hana, en hún hefur ekki gott af því að vera ekkert mjólkuð heldur. Íslenskur sjávarútvegur sem atvinnugrein hefur ekki verið mikið mjólkaður. Hann hefur ekki skilað inn í samfélagið því tekjustreymi sem hann gæti skilað sér að ósekju og skaðlausu. (ÁJ: Þetta er bull og þvæla.) Það er málið.

Markmið þessa frumvarps er að fá næringuna inn í lífæðar samfélagsins frá þessari atvinnugrein með því að leggja á hana hófleg og sanngjörn auðlindanýtingargjöld í formi veiðigjalda með þessari svokölluðu árgreiðsluaðferð sem mælir umframarðinn í greininni. Það er ekki verið að taka gjald af neinu öðru en þeim umframarði sem hingað til hefur farið til eigendanna sjálfra og inn í fáar fjölskyldur landsins til eigin nota en ættu að renna til samfélagsins (Forseti hringir.) sem telur núna ríflega 300 þús. manns, eftir því sem ég kemst næst.