140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður veltir því fyrir sér út frá þessu frumvarpi af hvaða tekjum samfélagið eða ríkissjóður hefði orðið á undanförnum áratugum. Ég held að það sé ekki rétt nálgun á þetta mál. Arðsemin í sjávarútveginum hefur aukist árlega um hálft prósent frá árinu 1984, sem er gríðarlega mikill árangur. Það er ástæðan fyrir því að við erum yfir höfuð að ræða um hvort sjávarútvegurinn eigi að greiða fjármuni til samfélagsins í gegnum ríkissjóð. Um það prinsipp er ekki lengur deilt, þær deilur voru settar niður fyrir rúmum áratug síðan.

Spurningin er þá þessi: Hversu mikið á að greiða til ríkissjóðs í þessu formi? Þar held ég að ég og hv. þingmaður séum mjög ósammála. Fram kom í öllum þeim álitum sem atvinnuveganefnd fékk að við værum að teygja okkur gríðarlega langt í þessum efnum og það er alveg ljóst mál að án breytinga sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til, jafnvel þó að menn láti vitleysuna sem var í forsendunum og á því öllu saman liggja á milli hluta, mundi ríkissjóður ekki fá þessar tekjur vegna þess að mjög mörg fyrirtæki, (Forseti hringir.) 50% fyrirtækjanna eða fleiri, mundu einfaldlega ekki þola það og verða gjaldþrota.