140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:58]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega rétt að stór hluti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er í þannig stöðu í dag í þessu kerfi sem ekki má hrófla við vegna þess meðal annars að hann rambar á barmi gjaldþrots vegna of mikillar skuldsetningar. (Gripið fram í.) Það er nefnilega staðan í dag. Þess vegna eru lagðar fram breytingartillögur sem fela í sér aðlögun og ívilnun á næstu fimm árum sem taka tillit til skuldsetningar fyrirtækja sérstaklega með það fyrir augum að tryggja að falli þessi fyrirtæki um koll á annað borð geri þau það þá ekki vegna þessara breytinga. En það er auðvitað alveg viðbúið að það gerist hvort eð er eins og fjölmargir sérfræðingar og hámenntaðir menn hafa verið að útlista fyrir okkur atvinnuveganefndarfólki upp á síðkastið í þessu dásamlega kerfi sem hv. þingmaður rómar svo mjög.