140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umsögn Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar segir, með leyfi forseta:

„Að lokum er rétt að benda á að renta í útgerð skiptist milli útgerðar og sjómanna, eins og fram hefur komið í fjölda rannsókna. Umfangsmikil skattlagning rentu mun lækka laun sjómanna til lengri tíma litið. Einnig hafa rannsóknir sýnt að samhengi er milli umfangs rentu og umgengni við auðlindir annars vegar og hvatans til leita nýrra nytjategunda hins vegar. Umfangsmikil skattlagning rentu í sjávarútvegi mun draga úr þessum hvötum.“

Er hv. þingmaður sammála því að þetta muni hafa áhrif á tekjur sjómanna eins og hér er vitnað til til lengri tíma litið? Er hv. þingmaður sammála því að þetta muni hafa áhrif á umgengni um auðlindina? Og er hv. þingmaður sammála því að þetta muni letja menn í að leita nýrra tegunda eins og hér kemur fram og vitnað er í í þessari úttekt?