140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki sammála því að þarna sé um umfangsmikla skattlagningu að ræða. Auðvitað breytir gjaldtaka alltaf forsendum og skilyrðum. Sá sem telur sig eiga kökuna sér alltaf eftir sneiðinni sem tekin er. Það er nákvæmlega það sem um er að ræða í þessu máli.

Greinin stendur vel í heild sinni þó að einstök sjávarútvegsfyrirtæki standi sum hver ekkert sérlega vel. Greinin hefur sennilega aldrei staðið betur en hún gerir þessi ár. Hún er vel aflögufær um að greiða sanngjarnan skerf til samfélagsins til þeirra byggðarlaga og búsetusvæða sem alið hafa þessa atvinnugrein af sér frá því að land byggðist.