140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi hér áðan í ræðu að 20 ár væru mikið öryggi. En 20 ára nýtingarsamningar eru vitanlega eingöngu um það að fá að veiða einhvern hluta af fiskinum í sjónum. Það er eftir samt sem áður mikið óöryggi, þ.e. um hversu miklu verður úthlutað ár hvert. Það er ekki eins og verið sé að tryggja sjómönnum eða útgerðarmönnum einhvern ákveðinn hluta, það er hins vegar verið að tryggja þeim að þeir geti vitað hvernig umhverfið verður næstu 20 árin en ekki það að þeir geti sótt eins og þeir vilja.

Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni um hvort hún væri sammála því að þessi aukna gjaldheimta, aukna skattheimta, umfangsmikil skattheimta, eins og nú er gefið í skyn í þessari skýrslu, mundi hafa áhrif á laun sjómanna eins og þeir segja.