140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:47]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að þrasa við hv. þingmann um þá þórðargleði sem mátti kenna í máli hans yfir efnahagsvanda evrusvæðisins eða annarra heimshluta ef því er að skipta, heldur fara beint í kjarna málsins. Það er ekki langt á milli manna og flokka ef grannt er skoðað í veiðigjaldsmálum og þeirri umræðu sem er um þau. Bæði Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin hafa í gegnum tíðina ályktað um að það eigi að taka upp almennt veiðigjald. Markmiðið, eins og kemur fram í frumvarpinu, er að tryggja allri þjóðinni hlutdeild í þeim arði sem nýting auðlindarinnar skapar svo og að sjálfsögðu að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit o.s.frv.

Þá komum við að kjarna málsins. Flokkarnir eru sammála um að það eigi að taka hóflegt, sanngjarnt veiðigjald fyrir aðganginn að auðlindinni sem öll þjóðin á saman. Við erum öll í þinginu sammála um það, a.m.k. langflest þó að það megi ekki alltaf greina það í þessu stóryrðakarpi um lýðskrum og hræsni í þessari merkingarlausu umræðu sem fer hérna fram að svo miklu leyti.

Ef við höldum okkur við kjarna málsins er ríkissjóður að innheimta af arði sem myndast við nýtingu auðlindar sem skilgreind hefur verið í þjóðareigu og þar erum við að tala um sérstaka gjaldið, það er sátt um almenna gjaldið. Þá förum við beint að því hverjar forsendur þess eru fyrst bæði Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin eru sammála um að það eigi að innheimta hóflegt, sanngjarnt veiðigjald. Ég tek það fram og hef sagt frá upphafi að ég tel að gjaldtakan megi ekki raska stöðu greinarinnar. Hún má ekki — þingmaðurinn spurði um það — hafa veruleg áhrif á byggðaþróun, þá með neikvæðum hætti þó að hún hafi vonandi að einhverju leyti jákvæð áhrif.

Framlegðin af útveginum er 75 og stefnir í 80 milljarða og hefur aldrei verið jafngóð og lítur út fyrir að verða á næsta ári. Þá spyr ég hv. þingmann: Hverjar eru forsendurnar fyrir hinu hóflega, sanngjarna sérstaka gjaldi? Fyrst flokkarnir eru sammála um að það eigi að innheimta það þurfum við bara að koma okkur saman um forsendurnar og hvert gjaldið sé. Við erum (Forseti hringir.) sammála um prinsippið og það skiptir mestu máli þegar upp er staðið.