140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ættum að geta verið sammála um prinsippið, það er rétt, en því miður er svo ekki að sjá á þeim tillögum sem hér hafa verið lagðar fram. Þess vegna er eðlilegt að tala um hræsni þegar menn tala á einn hátt og leggja svo fram tillögur sem ganga í þveröfuga átt.

Hv. þingmaður segist þeirrar skoðunar að tillögurnar megi ekki raska stöðu greinarinnar eða hafa áhrif á byggðaþróun. Það kemur fram í nánast hverju einasta áliti sem atvinnuveganefnd barst að þessar tillögur geri einmitt það, þær vægast sagt raski stöðu greinarinnar og hafi veruleg áhrif á byggðaþróun. Ég man ekki hversu mörg álit bárust frá sveitarfélögum vítt og breitt um landið uppfull af áhyggjum af áhrifum þessara frumvarpa á byggðaþróun. Annaðhvort kjósa menn að líta fram hjá öllum álitum sérfræðinga, þeirra sem starfa í greininni, þeirra sem búa á þeim stöðum sem reiða sig á sjávarútveg, líta einfaldlega fram hjá þeim, eða þeir verða að fallast á að þessar tillögur séu stórgallaðar.

Hvað varðar forsendurnar til að ná sátt um hóflegt gjald held ég að lykilatriðið í því hljóti að vera að gjaldtakan miðist við raunverulegan hagnað, að menn skattleggi þá hagnað af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja meira en hagnað annarra fyrirtækja en að það sé raunverulegur hagnaður sem myndar skattstofninn, ekki að menn séu að taka þessi gjöld yfir línuna óháð því hvernig fyrirtækin eru fjármögnuð o.s.frv. heldur að menn hafi einfaldlega tækifæri til að reka fyrirtæki í sjávarútvegi eins vel og þeir mögulega geta og ná eins miklum hagnaði og kostur er og að þeir sem nái mestum hagnaði greiði mestan skatt.