140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:51]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kjarni málsins, eins og ég nefndi áðan, og við erum sammála um meginatriði málsins, að ríkissjóður innheimti gjald sem tryggi þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem auðlindin skapar.

Þá komum við að forsendunum eins og ég spurði hv. þingmann beint um hverjar ættu að vera að hans mati. Nú erum við að ræða þetta hér aftur og eftir þær umsagnir sem hann vitnar til hafa verið gerðar mjög miklar breytingar. Það hefur verið gengið mjög í rétta átt að mínu mati, frumvarpið hefur batnað verulega, það er búið að gjörbreyta því. Það er búið að snarlækka gjaldtökuna þannig að nemur upp undir 10 milljörðum og þá erum við að tala um allt aðrar forsendur, væntanlega miklu hóflegri og sanngjarnari. Þess vegna er ekki rétt að vísa í umsagnir um tillöguna eins og hún var heldur erum við að ræða um hana eftir breytingar.

Ef ég heyrði rétt í umræðunum á föstudaginn var er ekki mjög langt á milli manna. Þar mátti greina það út úr máli þingmanna stjórnarandstöðunnar að verið væri að tala um gjaldtöku á bilinu 10–11 milljarðar á ári, 10–12 nefndu sumir. Þess vegna er ekki langt á milli og ég held að menn ættu aðeins að skrúfa niður stóryrðin og ræða þetta efnislega.

Hverjar eru forsendurnar sem við eigum að miða við? spyr ég beint að aftur. Ef framlegðin er eins og lagt er til á næsta ári 75–80 milljarðar spyr maður: Hverjar eru hinar réttu forsendur að mati þingmannsins? Ég vísa aftur í föstudaginn var, þá nefndu þingmenn úr bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki þessa tölu, að 10–12 milljarðar væru sanngjarnt og hóflegt gjald sem væri hægt að sætta sig við. Þá spyr ég beint: Hvað af framlegðinni sem ég nefndi gæti myndað þær forsendur sem stæðu á bak við það sem Framsóknarflokkurinn ályktaði um, eins og margir aðrir flokkar, að það ætti að innheimta eðlilegt og hóflegt gjald af nýtingu auðlindarinnar þannig að þjóðin öll fengi hlutdeild í arðinum án þess að það raskaði stöðu greinarinnar?