140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:48]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær áhyggjur sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vék að. Það er hætta á afturhvarfi.

Árið 1983 kom ég fyrst inn á þing. Þegar reglurnar voru settar um kvótakerfið voru allir aðilar til sjós og lands sammála um kerfið nema eitt fyrirtæki, Félag botnvörpuskipaeigenda, sem átti tvo gamla togara í Reykjavík. Þetta var samþykkt mótatkvæðalaust nema þrír þingmenn voru á móti því kerfi; sá er hér stendur, Garðar Sigurðsson og á Snæfellsnesi yndislegur alþýðubandalagsmaður þá …

(Forseti (ÁI): Skúli.)

Skúli Axelsson.

(Forseti (ÁI): Alexandersson.)

Skúli Alexandersson, virðulegi forseti. Takk. Maður lítur alltaf á Skúla eins og ljóð, þess vegna man maður stundum ekki nafnið hans.

En þetta var nú svo. Það kerfi fór í gang með nokkru svona flippi. Það var ekki samfella í því fyrstu þrjú árin. Mismunandi kerfi voru, dagakerfi, aflamark og fleira. Einstaka menn fóru út úr því með mikla peninga og fóru í allt annað. Hættan núna er sú, ef við röskum þessu eins og talað er um, að við missum urmul af útgerðarmönnum út úr kerfinu, þeir taki reynslu sína, peninga, sinn grunn og fari í eitthvað allt annað, jafnvel í útlöndum. Það er hættan í dag ef við hegðum okkur ekki eins og menn og treystum þeim sem eru að vinna í greininni.