140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því, með leyfi forseta, að lesa upp úr frétt sem var að birtast á mbl.is en þar segir:

„Frumvörpin um sjávarútveginn sem liggja nú fyrir Alþingi eru klárlega aðför að kjörum sjómanna og landverkafólks. Það er morgunljóst að auðlindagjald í sjávarútvegi kemur til með að rýra kjör sjómanna og landverkafólks. Allir aðilar sem hafa skilað umsögnum um frumvörpin eru sammála um að svo sé. Fundurinn tekur heils hugar undir þá skoðun að auðlindagjald í sjávarútvegi sé í raun landsbyggðarskattur. Þetta kemur fram í ályktun fundar landverkafólks og sjómanna sem fram fór í Höllinni í Vestmannaeyjum í dag.“

Nú velti ég fyrir mér, frú forseti. Þarna höfum við fund sjómanna og landverkafólks sem ályktar samhljóma — það voru 417 manns á þeim fundi — á þann hátt sem ég las upp áðan um að með því frumvarpi sem verið er að ræða væri verið að skerða kjör sjómanna og landverkafólks.

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra, og raunar fleiri stjórnarliðar þegar þau tala fyrir þessum tillögum, talað iðulega um sægreifa og gefið hefur verið í skyn að aðeins örfáir menn hafi hag af því fyrirkomulagi sem verið er að raska með þessum tillögum.

Hvernig stendur á því að mati hv. þingmanns að hæstv. forsætisráðherra kýs að líta algjörlega fram hjá þeim þúsundum sem starfa í þessari grein eða í tengdum greinum og hafa, eins og kom fram á fyrrnefndum fundi þar sem 417 manns ályktuðu samhljóða, augljósan hag af því að sjávarútvegurinn sé rekinn á hagkvæman hátt (Forseti hringir.) og ekki umturnað á þennan hátt?