140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hefur stjórnarandstaðan oftast tekið til máls, einstakir hv. þingmenn stjórnarliða hafa talað hér og ber að sjálfsögðu að þakka þeim fyrir að taka þátt í umræðunni. En af þeim ræðum sem fluttar hafa verið af stjórnarandstöðuþingmönnum er alveg ljóst að miklar efasemdir eru um þessi frumvörp og menn eru á móti því að fara þá leið sem boðuð er þar, í það minnsta eins og málin líta í dag. Menn sjá hvorki fyrir endann á frumvarpinu um veiðigjöld né hinu frumvarpinu. Jafnframt hefur komið fram hjá sérfræðingum að ef breyta á fiskveiðistjórnarkerfinu þurfi að horfa sérstaklega til þess hvaða breytingar verða gerðar þar og hvort þær hafi áhrif á frumvarpið.

Látið var í það skína í morgun að Landssamband íslenskra útvegsmanna sé eitt á báti í því að binda flotann við bryggju og fara ekki út, en nú sjáum við að það er nú aldeilis ekki þannig. Ég sé að í viðtali við formann kjararáðs Sjómannafélags Íslands kemur fram að sjómenn hafi skilning á og styðji aðgerðir útvegsmanna varðandi þetta. Menn verða vitanlega að passa sig á því að kjaraviðræður eru í gangi, en að sjálfsögðu er þessu ekki beint gegn þeim, inn í þær viðræður. Það er þó alveg augljóst að sjómenn skilja vel þá hættu sem felst í þessum frumvörpum fyrir lífsafkomu þeirra. Þar af leiðandi er eðlilegt að þeir taki undir þessa gagnrýni.

Þá kom fram í andsvari áðan að gríðarlega fjölmennur fundur sjómanna og landverkafólks í Vestmannaeyjum hefur sent frá sér ályktun og bókað mótmæli við þá leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara í þessu máli. Endar fundurinn ályktun sína á því að skora á stjórnvöld og formann atvinnuveganefndar að hitta þetta góða fólk í Vestmannaeyjum til að hlusta á sjónarmið þess og athugasemdir við frumvörpin.

Þegar málin eru unnin með þeim hætti sem hér er gert, á bak við tjöldin án samráðs við þessa aðila, hvort sem það eru útgerðarmenn eða fólk sem starfar í sjávarútvegi, hljótum við að lenda í þessari klípu. Ég hefði haldið að stjórnvöld hefðu átt að vera búin að læra af því að vinna ekki málin með þessum hætti, þ.e. að enda í mótstöðu við langflesta í þessari atvinnugrein.

Síðan er hér frétt sem mig langar að deila með þingmönnum, hún er af Morgunblaðsvefnum. Þar er viðtal við Grímseying og kemur fram að allur floti Grímseyinga er í höfn. Þar er bæði um að ræða báta eða útgerðarmenn sem eru í samtökum Landssambands íslenskra útvegsmanna og aðila sem ekki eru þar, þeir eru þá væntanlega í Landssambandi smábátasjómanna eða einhverjum öðrum samtökum. Í Grímsey er hvert einasta skip bundið við bryggju. Viðtalið sem ég vitna í er við Gunnar Hannesson, útgerðarmann í Grímsey, með leyfi forseta:

„„Það er ekki hægt fyrir okkur annað að gera. Við erum búnir að kaupa hérna allir mikinn kvóta og sjáum ekki fram úr þessu og þurfum að borga af lánum með þessu veiðigjaldi sem þeir ætla að skella á okkur. Ég get ekki séð að við lifum þetta af hérna“, sagði Gunnar og bætti við: „Í þessari litlu útgerð minni erum við 18 sem vinnum saman. Það er alltaf talað um að þessir útgerðarmenn séu verstu glæpamenn. En það er ekki talað við fólkið sem vinnur hjá okkur. Við erum fjölskyldan eins og hún leggur sig í þessu, börn og allt saman sem lifa af þessu.““

Þetta er það sem hæstv. forsætisráðherra ætti að kynna sér, hún ætti að fara í ferðalag um landið og hitta þetta fólk og skoða þessi fjölskyldufyrirtæki sem eru næstum í hverju einasta sjávarplássi hringinn í kringum landið. Um er að ræða lítil fjölskyldufyrirtæki sem eru að reyna að lifa af og skila um leið arði til þjóðarinnar sem þau gera svo sannarlega í formi veiða og vinnslu og útflutnings og alls þess sem þessu fylgir. En á það virðist ekki vera horft. Farið er með hornin í greinina og í alla þá sem starfa í sjávarútvegi, eftir orðum hæstv. forsætisráðherra að dæma. Það er ekki lengur hægt og það tekur enginn mark á því lengur þegar ráðherrar og þingmenn stjórnarliða standa á torgum úti eða í ræðustól Alþingis og tala um óþjóðalýðinn í LÍÚ. Það er ekki hægt að tala svoleiðis lengur að ásaka ein samtök um slíka hegðun. Auðvitað eru menn fylgnir sér og stundum heldur fylgnir sér innan þessara samtaka líkt og allra annarra. En það virðist hafa hentað í umræðunni, og hefur hentað þeim stjórnarflokkum sem nú eru við völd, sérstaklega Samfylkingunni, undanfarin 10–15 ár að tala um alla í þessari grein á þennan hátt. Það er að mínu viti til skammar því að langflestir í sjávarútvegnum eru strangheiðarlegt og harðduglegt fólk eins og í flestum öðrum atvinnugreinum.

Það má örugglega finna einhverja skussa í þessari grein eins og í öllum öðrum atvinnugreinum, líka í opinberum störfum og jafnvel hér á Alþingi. Það hlýtur að mega finna einhverja skussa alls staðar.

Við getum ekki látið þetta mál sigla óbreytt í gegn án þess að vita hvert framhaldið verður. Það er það sem kallað er eftir.

Ég velti því líka fyrir mér þegar ég skoða þau gögn sem stjórnin leggur til grunns að frumvarpi sínu að ég fæ ekki séð að auðlindahagfræðingur eða einhver með svipaða menntun hafi komið að smíði þessa frumvarps eða verið álitsgjafi þar. Það væri gaman að heyra hvernig því var háttað. Við höfum séð góð álit frá vísum mönnum sem okkur ber að hlusta á, en það væri forvitnilegt að vita hvort það er rétt hjá mér, að þetta hafi ekki bara farið fram hjá mér, og hvers vegna ekki hefur þá verið haft samráð við slíkan sérfræðing.

Við höfum heyrt marga af okkar færustu sérfræðingum tala um það síðustu þrjú, fjögur ár hversu galnar þessar hugmyndir eru hjá stjórnarflokkunum um breytingar á kerfinu, hvort sem það er fyrning eða eitthvað annað. Það kann að vera að þessir ágætu menn hafi þá verið settir út af sakramentinu.

Í svokallaðri sáttanefnd, sem hv. þm. Árni Johnsen vitnaði til áðan, lögðu menn sig fram við að reyna að ná fram sátt sem hægt væri að byggja á. Þar lögðu allir mikið á sig. Um tíma var staðan þannig að útvegsmenn sáu sig knúna til þess að hætta að mæta á fundi nefndarinnar. Það var nú ekki vegna samstarfsins í nefndinni heldur vegna þess að stjórnvöld gengu enn og aftur á bak orða sinna. Útvegsmenn komu þó aftur og tóku þátt í því að ljúka störfum nefndarinnar.

Það er mjög sorglegt að þegar upp var staðið var ekkert gert með þá miklu vinnu sem þarna var unnin, það var ársvinna ef ég man rétt. Nú standa menn og veifa skýrslunni góðu og segja: Við byggjum þessi frumvörp á þessari skýrslu.

Ég fæ ekki betur séð en að það eina sem byggt er á í tillögum stjórnarflokkanna er að talað er um nýtingarleyfi. Við tölum reyndar um nýtingarsamning. Ég geri greinarmun á samningum og því að veita leyfi. Talað er um að veita þurfi leyfi til langs tíma. Svo er farið að hræra í grautnum, setja alls konar óþverra út í pottinn og að sjálfsögðu verður þá til einhver grautur sem enginn vill éta. Það er nákvæmlega það sem þessi frumvörp eru. Þau eru algjörlega óætur grautur, það er bara þannig, því miður. Þess vegna er svo mikilvægt að gefa sér tíma til þess að fara yfir þessi mál.

Það var einkennandi við þessa 23 manna nefnd að þar var breiður hópur einstaklinga úr samfélaginu. Það var yfirlýstur vilji allra að reyna að ná sátt og hafa samráð um hvernig ætti að ljúka þessu. Í upphafi vinnunnar var farið yfir hvers konar kerfi við vildum byggja á, hvers konar sjávarútvegskerfi við vildum hafa á Íslandi. Niðurstaðan kom nánast strax og um það geta vitnað þeir þingmenn sem voru í þessari nefnd, hún var að byggja á því kerfi sem við erum með í dag, á aflamarks- og aflahlutdeildarkerfi.

Það kann vel að vera að niðurstaðan úr samráðinu hafi verið vonbrigði fyrir einhverja stjórnarliða sem hafi haldið að þeir fengju út úr þessu einhvers konar leigukerfi þar sem uppboðsmarkaður réði öllu saman. Það kunna að hafa verið vonbrigði, en um þetta náðist niðurstaða, um það náðist sátt. Það er ósköp eðlilegt að við sem stóðum í þessu séum mörg hver nokkuð svekkt yfir því að hafa staðið að því að ná niðurstöðu sem svo ekkert er gert með vegna þess að örfáir — ég segi bara öfgamenn voru með hugmyndir sem ekki náðu fram að ganga. Mér þykir það miður.

Hér hefur líka verið minnst á hvort aðrar leiðir séu færar varðandi veiðigjaldið. Þá gefum við okkur að menn séu sammála um að veiðiréttarhafar geti greitt aðeins hærra veiðigjald og greitt þar af leiðandi hærri skatta til ríkisins. Ég kalla eftir því að formaður atvinnuveganefndar kynni þær hugmyndir sem hann minntist á í ræðu sinni sem voru að mér skilst nokkuð mótaðar. Ég held að það væri rétt að menn létu á það reyna hvort hægt væri að ná sátt eða einhvers konar miðlunartillögu um þessi frumvörp, allt sem verður til þess að lægja öldurnar er vel þess virði að skoða það. Markmiðið er það sama, þ.e. að fá eitthvað meira af aurum í ríkissjóð sem eiga svo að sjálfsögðu að fara að einhverju leyti í útgerðina í formi nýsköpunar og rannsókna og líka aftur til byggðarlaganna, því að þetta er mest landsbyggðarskattur. Svo þarf að finna kerfi sem gengur upp og setur ekki einstaka útgerðir á höfuðið. Það er að sjálfsögðu lykilverkefni.

Við ræddum aðeins um núgildandi kerfi, ég og hv. þm. Árni Johnsen, í andsvari og svari. Við fórum í gegnum söguna í sáttanefndinni, hvernig kerfið varð til og ástæðuna fyrir því að menn héldu í það. Sú saga er mjög einföld. Við vorum að missa auðlindina og fyrirtækin frá okkur, hér var allt að fara um koll. Þess vegna fóru menn í svona miklar breytingar. Það er hins vegar búið að gera ýmsar breytingar á kerfinu síðan og er mikilvægt að halda áfram að þróa kerfið í takt við reynsluna og tímann. En að taka í burtu meginmarkmið kerfisins, hagræðinguna, uppbyggingu fiskstofnana, er vitanlega algjört brjálæði. Það er verið að gera að mínu viti með þessum frumvörpum. Veiðigjaldið er að sjálfsögðu stór hluti af því, óhóflegt veiðigjald mun að sjálfsögðu rýra möguleika fyrirtækjanna til að standa í skilum og byggja sig svo upp.

Við þingmenn ættum nú að fjalla um hvernig við getum blásið lífi í sjávarútveginn og skapað þar sóknarfæri. Við ættum að fjalla um hvernig við getum styrkt nýsköpun og allt slíkt sem fylgir sjávarútveginum. Sjávarútvegsfyrirtækin ættu nú með hjálp ríkisins að vera að leita nýrra markaða fyrir afurðir sínar því við vitum hvernig ástandið er í Evrópu. Við skulum ekki fara í grafgötur með það að verði önnur og dýpri kreppa í Evrópu en við höfum áður þekkt, sem flestir spá í dag, mun það hafa veruleg áhrif á Ísland. Þar af leiðandi er mjög bagalegt að við séum ekki á bullandi siglingu og í sókn með okkar helstu atvinnugrein sem er sjávarútvegurinn. Þess í stað erum við að reyna að verja þessa grein. Þá er ég ekki að tala um að verið sé að verja einhverja skrýtna eða annarlega hagsmuni, eins og mörgum virðist vera mjög umhugað um að koma hér á framfæri, heldur greinina í heild og það sem mestu skiptir, að hún skili fólki atvinnu, tekjum til ríkisins og góðu samfélagi hér.

Í umfjöllun Arion banka um veiðigjaldið kemur fram, með leyfi forseta:

„Bankinn gerir ráð fyrir að flest þau fyrirtæki í sjávarútvegi sem farið hafa í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu muni horfa fram á fjárhagslega erfiðleika nái frumvarpið fram að ganga.“ — Þetta er um veiðigjöldin. — „Þá gæti annars vegar komið til þess að fyrirtæki þurfi að nýju fjárhagslegrar endurskipulagningar við eða að bankinn þurfi að innleysa veð til lúkningar skulda. Þessi staða á aðallega við um lítil og meðalstór fyrirtæki sem mörg hver eru staðsett í minni sveitarfélögum á landsbyggðinni.“

Er það það sem þingmenn stjórnarflokkanna stefna að? Er það það sem þeir vilja, að koma litlum og meðalstórum fyrirtækjum annaðhvort beint undir stjórn fjármálastofnana, þ.e. að þær leysi hreinlega til sín fyrirtækin, eða þá að þessi fyrirtæki geti hvorki hreyft legg né lið nema með leyfi viðkomandi lánastofnunar? Þetta er því gríðarlega stórt mál.

Þær áhyggjur sem við sjáum núna í ályktunum frá til dæmis Vestmannaeyjum, í viðtölum sem við áttum við fólk um sjómannadagshelgina og í þeim skilaboðum sem við höfum fengið, er það alveg ljóst að þeir sem starfa í þessari grein eru hræddir um stöðu sína, það er ekkert hægt að horfa fram hjá því. Það er mjög sorglegt að við skulum vera hér með málið í þessari hönk einmitt nú á dögum.

Ég verð að segja að mér finnst það slæmt þegar hæstv. forsætisráðherra stígur hér í pontu og segir að einhverjir aðilar gangi grímulaust erinda sjávarútvegsins. Ef gefið er í skyn að ég gangi grímulaust erinda sjávarútvegsins vegna þess að ég er á móti þessum frumvörpum, vegna þess að ég er á móti því að hæstv. forsætisráðherra skerði atvinnu tugþúsunda Íslendinga, hlýt ég að gangast við því, ég viðurkenni það bara hér með. En ef hæstv. forsætisráðherra á við að verið sé að ganga erinda einhverra einstakra manna þá vísa ég því beint til föðurhúsanna því að hæstv. forsætisráðherra ætti að vera búin að læra af reynslunni. Ég veit ekki betur en að flokkur hennar hafi gengið hér milli manna á góðæristímanum til að hjálpa þessum útrásarvíkingum öllum saman.

Svo er nú ágætt að minna á það fyrst maður er nú í ræðustól að Samfylkingin var ekki fundin upp í gær, hún var hér í ríkisstjórn frá 2007, ef einhver skyldi hafa gleymt því, og hefur haft mörg tækifæri til að koma að sjávarútvegsmálum en hefur ekki nýtt sér það. Það hefur nefnilega hentað þeim flokki ágætlega að hafa þessi mál öll í uppnámi. Frasarnir ganga í marga, því er miður. Það eru ekki rökin sem telja, heldur frasarnir. En nú er nóg komið af því. Nú þurfum við að standa saman og sjá til þess að þeir sem tala af vanþekkingu í þessum efnum setji ekki allt samfélagið í uppnám.

Það eru nú einu sinni almannahagsmunir í húfi og einhverjir mestu hagsmunir Íslendinga felast í því að við séum með vel rekinn, öflugan sjávarútveg sem skilað getur arði til samfélagsins í gegnum skatta og skyldur í gegnum fjárfestingar og viðskipti við lítil og stór fyrirtæki hér á Íslandi og heldur tugþúsundum manna í vinnu, það eru almannahagsmunir. Ég hygg að það gæti þjónað almannahagsmunum betur en að fara þá leið sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja fara með því að búa til sjávarútveg sem háður er ríkinu á hverjum tíma með útdeilingu veiðileyfa sem leigð eru út eða með því að greiða háa skatta til ríkisins.

Ég held því að lausnin að þessu geti verið sú að leggja þá aðferðafræði sem lögð er til í þessu frumvarpi til hliðar, setja hana í versta falli í einhvers konar endurskoðun og nýta veiðileyfagjaldið, fastagjaldið sem er til staðar í dag og hafa mögulega eitthvert afkomutengt gjald því til viðbótar og nota svo tekjuskattskerfið. Það held ég sé eina raunhæfa lausnin til að við setjum ekki stóran hluta af fyrirtækjunum í mikla klemmu eða jafnvel lóðbeint á höfuðið.

Frú forseti. Þetta eru einhver stærstu mál sem eru í þinginu í dag og því eðlilegt að þingmenn ræði þau til hlítar. Það eru enn þá margir vinklar óræddir í þessu máli og óska ég eftir því, frú forseti, að verða settur aftur á mælendaskrá til að ræða þá.