140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kemur hv. þingmaður að kjarna málsins sem er í því fólginn að í öðrum þjóðfélögum er sjávarútvegurinn ríkisstyrktur. Víðast hvar líta menn einfaldlega á þetta sem hér um bil félagslegt fyrirbæri, t.d. styrkja Bretar sjávarútveginn sinn. Þetta er gert í mörgum löndum Evrópusambandsins. Það hefur verið gerð könnun á því af hálfu Alþjóðabankans sem meðal annars íslenskur hagfræðingur, Ragnar Árnason, kom að. Þar kom fram að ríkisstyrkir sem hlutfall af aflaverðmæti gætu numið 25–30% heilt yfir. Íslenski sjávarútvegurinn er öðruvísi í grundvallaratriðum. Er nokkur að ræða um að við þurfum að styrkja okkar sjávarútveg? Nei, við erum að ræða um að við þurfum að skattleggja hann sérstaklega.

Þegar við skoðum málið í alþjóðlegu samhengi sést að þetta er algjörlega óþekkt fyrirbrigði. Engar aðrar þjóðir fara þessar leiðir. Sumar þjóðir fara að vísu þá leið að láta sjávarútveginn standa að einhverju leyti undir starfskostnaði í kringum greinina eins og Hafrannsóknastofnun og eftirlitsstofnanir en þó bara að hluta til. Við erum að tala um að það sé minni háttar gjaldið, almenna gjaldið sem menn eiginlega afgreiða þannig að enginn muni finna fyrir því þótt það sé 4,5–5 milljarðar kr.

Aðalatriðið finnst mér vera að við erum hérna að fást við lúxusvandamál. Við erum með atvinnugrein sem menn telja að geti borið sérstaka skattlagningu umfram aðrar atvinnugreinar í landinu upp á 15 milljarða kr. á ári og hafa talað í því sambandi um að það sé alls ekki nóg. Hv. þingmaður þekkir mjög vel til á landsbyggðinni og gerir sér grein fyrir því að þegar slík skattlagning á sér stað mun það hafa áhrif. Það hefur áhrif á getu greinarinnar til að taka þátt í alls konar starfsemi á landsbyggðinni. Það mun hafa þau áhrif að það dregur úr viljanum og getunni til fjárfestinga. Það mun auðvitað líka hafa þau áhrif eins og menn sjá núna í kjarasamningum að það mun draga úr möguleikum manna til að hækka laun starfsfólk í atvinnugreininni.