140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem er líka athyglisvert við þetta mál er að það er kynnt í stjórnarflokkunum og samþykkt. Það er alveg ótrúlegt að það skuli gerast þannig að þeir hv. þingmenn sem eru kjörnir fyrir þau sveitarfélög og þá landshluta sem eiga mikið undir þeim málum sem hér um ræðir, þ.e. þessum sérstaka landsbyggðarskatti, skuli ekki einu sinni hafa rænu á að gera athugasemdir við það að ekki séu skoðuð áhrif frumvarpanna á byggðirnar og þróun byggðar í landinu. Ég kalla líka eftir viðhorfum hv. þingmanns til þess.

Eftir alla fagurgalaumræðuna um skýrslu þingmannanefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndarinnar, að nú ætti að breyta hér vinnubrögðum og vanda allan málatilbúnað, er þetta áfram gert með sama hætti. Það er eins og hv. þingmenn láti leiða sig fram af bjargbrúninni án þess að gera sér nokkra grein fyrir á hvaða leið þeir eru.

Því vil ég setja þetta í samhengi við það sem hv. þingmaður sagði um einstaka hv. þingmenn, þ.e. þessa frasaumræðu. Þeir koma hér upp og hvar sem er og hvenær sem er og setja fram frasa. Hæstv. forsætisráðherra fer kannski fremstur í flokki en margir eru að keppa um fyrsta sætið í þeirri keppni að setja fram innihaldslausa frasa.

Maður les hér umsagnir frá hverju sveitarfélaginu á fætur öðru. Það skiptir engu máli hvort þar eru vinstri sinnaðir einstaklingar í forsvari eða hægri sinnaðir sveitarstjórnarmenn, alls staðar vara menn við því hvaða áhrif þetta muni hafa á viðkomandi sveitarfélög. Fullyrðingarnar sem koma fram í umsögnunum eru grafalvarlegar. Hvert er mat hv. þingmanns á þessum vinnubrögðum? Telur hv. þingmaður búið að koma til móts við þessar ábendingar frá sveitarstjórnarmönnum víðs vegar um allt land í sjávarbyggðum þar sem er varað við afleiðingum af þessum málum?