140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Ég þakka þingmanninum líka fyrir að hafa sagt það í andsvari sem ég held að við höfum mjög margir þingmenn verið að leita að, að sjálfsögðu snýst þetta um sérhagsmuni Samfylkingarinnar fyrst og fremst, kannski bara ekkert annað í rauninni. Samfylkingin hefur svo sannarlega veðjað á þann hest nánast frá stofnun að skapa óróa um sjávarútveginn og draga upp mynd af honum sem er líkleg til þess að afla þeim flokki atkvæða. Þannig á að halda áfram og um það snýst þetta, að reyna að búa til óánægju og beina athyglinni inn í óánægjuraddirnar til þess að fá atkvæði.

Það er þekkt úr stjórnmálasögunni að flokkar og jafnvel einstakir stjórnmálamenn beiti aðferðafræði eins og þessari og það er að mínu viti ekkert sérstaklega geðfellt.

Ég hef fullan skilning á því þó að þingmaðurinn geti ekki svarað spurningu minni beint því að ég held að ég gæti það ekki úr mínu kjördæmi en mig langar að vita hvort hún geri sér grein fyrir því hversu mörg fyrirtæki í hennar kjördæmi hafi viðurværi sitt af þjónustu við sjávarútveginn, hversu mörg fyrirtæki vinna beint eða óbeint með sjávarútveginum. Þá er ég að tala um útgerðarfyrirtæki, veiðarfærasala, þá sem selja kost, vélsmiðjurnar, rafvirkjana o.s.frv. Hversu mörg fyrirtæki þjónusta sjávarútveginn í kjördæmi þingmannsins? Það er gríðarlega mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem mér hefur — kannski er ósanngjarnt hjá mér að segja þetta — oft fundist vanta skilning á því um hvað sjávarútvegurinn snýst, út á hvað hann gengur. Menn verða að gera sér grein fyrir því að um allt land, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, eru mörg fyrirtæki og margir einstaklingar (Forseti hringir.) sem hafa lífsviðurværi sitt af þessari atvinnugrein.