140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjöld. Atvinnuveganefnd hefur fengið til sín fjölda gesta og umsagnir og farið ítarlega yfir málið í kjölfarið með ýmsum sérfræðingum utan sjávarútvegsráðuneytisins sem innan. Niðurstaðan er sú að tekið hefur verið tillit til málefnalegra athugasemda og gerðar veigamiklar breytingar á frumvarpinu sem lúta meðal annars að lengri aðlögunartíma og því að mæta skuldsettum sjávarútvegsfyrirtækjum með miklum afslætti af veiðigjaldi fyrstu árin. 1,5 milljarðar munu fara í ívilnun vegna kvótaskulda næstu fimm árin. Þarna er verið að mæta gildum sjónarmiðum um erfiða stöðu margra sjávarútvegsfyrirtækja sem fjárfest hafa í aflaheimildum á uppsprengdu verði og þarna eiga ekki síst í hlut lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru illa skuldsett vegna kvótakaupa.

Það er umhugsunarvert hvert ígildi auðlindarentunnar hefur farið í gegnum árin. Auðlindarentan hefur ekki farið til þjóðarinnar heldur í vasa þeirra sem nýta auðlindina í dag eða til þeirra sem hafa selt sig út úr greininni. Stundum er talað um spekileka í samfélögum. Ég vil meina að allan þann auðlindaleka sem verið hefur í gegnum árin í vasa fárra útvalinna og út úr greininni í brask og einkaneyslu eigi að stöðva. Nú er kominn tími til að þjóðin fái eðlilegan afrakstur af sameiginlegri sjávarauðlind þjóðarinnar.

Mikill umframhagnaður er í sjávarútvegi í dag, sem betur fer segi ég. EBITDA í ár stefnir í 70–80 milljarða. Á undanförnum árum hefur greinin verið með hátt í 200 milljarða í framlegð í EBITDA. Greinin hefur notið góðs af lágu gengi krónunnar sem aftur á móti bitnar á almenningi í landinu í hærra vöruverði á innfluttum varningi. Sjávarútvegsfyrirtækin eiga að vera stolt af því að geta lagt til sanngjarna auðlindarentu af umframhagnaði sínum til endurreisnar samfélagsins.

Þegar verið er að tala um veiðigjald og auðlindarentu má oft skilja umræðuna þannig, sérstaklega málflutning LÍÚ, að skattleggja eigi greinina alveg í drep. En um hvað erum við að tala? Grunnveiðigjaldið er 9,50 kr./kg á þorskígildistonn næstu fimm árin og á næsta ári tæpar 30 kr. á þorskígildistonnið á umframhagnað í sérstöku veiðigjaldi. Það eru nú öll ósköpin í heildarsamhenginu. Á næsta ári er sem sagt verið að greiða 22% af umframhagnaði í sérstakt veiðigjald. Getur greinin staðið undir þessu? Já, það hefur komið fram hjá títtnefndum sérfræðingi sem kom fyrir nefndina, Daða Má Kristóferssyni.

Við skulum líta til þess að starfsmaður í fiskvinnslu með 200 þús. kr. á mánuði greiðir 22,9% af þeirri upphæð í tekjuskatt en þá á vitaskuld eftir að nýta persónuafsláttinn. Allur sjávarútvegurinn hefur verið að greiða að meðaltali um 1 milljarð í tekjuskatt á ári síðustu tíu árin. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á þessu veiðigjaldafrumvarpi eru til mikillar lækkunar frá því sem áætlað var. Sú upphæð nemur að lágmarki 6–7 milljörðum. Utan þess er verið að tala um annan uppreikning á stofnverði í greininni.

Við verðum að horfa til framtíðar í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Þar eru horfurnar mjög góðar og yfir því getum við öll á Alþingi glaðst, sem og þjóðin öll. Samkvæmt líkani Hafró er von á stöðugri uppbyggingu þorskstofnsins sem skilar sér í enn auknum tekjum í framtíðinni. Við megum ekki festa okkur í núverandi skuldastöðu fyrirtækja sem er afleiðing núverandi kerfis. Við verðum að horfa til framtíðargetu greinarinnar til að standa undir afkomutengdri auðlindarentu og að greinin búi við heilbrigðara rekstrarumhverfi en verið hefur. Í gegnum árin hefur allt of mikið fjármagn sogast út úr greininni. Í stað endurnýjunar flotans og í uppbyggingu í greininni sjálfri og í sjávarbyggðunum hefur rentan farið mikið í óskyldan rekstur og einkaneyslu.

Mér hefur þótt illa farið með þá gífurlegu fjármuni sem farið hafa í hræðsluáróður gagnvart þeim fiskveiðistjórnarfrumvörpum sem liggja nú fyrir Alþingi og hefði þeim fjármunum betur verið varið í laun til þess fólks sem vinnur í greininni. Nú kórónar Landssamband íslenskra útvegsmanna vitleysuna með því að binda flotann við bryggju. Þær aðgerðir sem LÍÚ boðar gegn stjórnvöldum samræmast ekki leikreglum vinnumarkaðarins. Vinnustöðvun eða verkbann líkt og LÍÚ hefur hvatt til stenst ekki ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur sem fjalla um verkföll og verkbönn. Boðaðar aðgerðir LÍÚ beinast ekki gegn viðsemjendum sínum, sjómönnum, heldur gegn stjórnvöldum landsins. Ég tel það hættulegt lýðræði landsins að beita sér með þessum hætti gegn starfsfólki sínu og lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Þetta eru þvinganir, aðgerðir sem geta haft efnahagslega alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið.

Ég hvet því alla þá sem vettlingi geta valdið að sýna nú þann samfélagslega þroska að afgreiða fiskveiðistjórnarfrumvörpin sem bæði tvö endurspegla mikla vinnu þvert á flokka og með hagsmunaaðilum þar sem gengið hefur verið svo langt til að málamiðla að þeir hópar sem sterkar skoðanir hafa á málinu báða bóga, þeir sem vilja engar breytingar og þeir sem vilja róttækar kerfisbreytingar, eru báðir ósáttir. Lýðræði krefst málamiðlana og sú málamiðlun sem felst í þessu frumvarpi er réttsýn og skilar þjóðinni sanngjarnri auðlindarentu. Sjávarútvegurinn mun vel rísa undir þeirri afkomutengdu rentu sem boðuð er í þessu frumvarpi.