140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um neikvæðar afleiðingar þessa frumvarps fyrir Vestfirði og vitnar í umsagnir sem þaðan hafa borist. Ég tel að með því að gefa afslátt af veiðigjaldinu höfum við mætt vel þeim málefnalegu umsögnum sem bárust varðandi þau fyrirtæki sem hafa skuldsett sig upp fyrir rjáfur undanfarin ár. Þá eiga þau fyrirtæki sem yfir höfuð hafa möguleika á að reka sig við eðlilegar aðstæður að geta spjarað sig.

Jafnt í sjávarútvegi sem öðrum greinum verða alltaf einhver fyrirtæki sem halda ekki velli og ýmsar orsakir geta legið að baki því eins og gengur og gerist í atvinnulífinu í almenna geiranum sem enginn ræður við.

Varðandi það hvort sá þingmaður sem hér stendur hafi haft uppi einhver varnaðarorð um þessi frumvörp þegar þau voru lögð fyrir þingflokkinn taldi ég rétt að bæði þessi frumvörp fengju þinglega meðferð og að veiðigjöldin yrðu skoðuð ofan í kjölinn, hvernig þau kæmu út gagnvart útgerðarflokkum, og við mætum það svo í framhaldinu.

Ég tel að við höfum tekið mjög málefnalega afstöðu til frumvarpsins. Eins og það lítur út núna munu öll rekstrarhæf fyrirtæki standa undir veiðigjöldunum og ég fullyrði að það verður ekki nokkur vandi fyrir þau sem mala gull í dag að rísa undir því lága veiðigjaldi sem ég tel að hér sé um að ræða.