140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin, þau voru mjög afdráttarlaus. Hv. þingmaður fullyrðir að öll fyrirtæki sem séu í eðlilegu rekstrarumhverfi eigi að geta staðið undir þessum álögum. Hefði hún þá talið eðlilegt að meta það aftur út frá einstaka sveitarfélögum hvort veiðigjöldin muni hafa þau áhrif sem varað hefur verið við, þ.e. eftir að búið er að gera breytingarnar af hálfu meiri hlutans sem ég tel flestar, ef ekki allar, til bóta?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann: Telur hún að þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur rætt í stjórn fiskveiða, þ.e. í hinu málinu sem enn er til meðferðar í nefndinni, séu einu breytingarnar sem þarf að gera á því máli til að hægt sé að leggja það fyrir þingið? Er þá búið að taka tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið fram í meðförum málsins? Gerir hv. þingmaður kröfu um að enn frekari breytingar verði gerðar á því máli?