140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég held að ég sé ósammála nánast öllu sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Ég botna reyndar ekkert í ræðunni. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður, sem kemur úr sama kjördæmi og ég, hafi smitast af frasapólitík Samfylkingarinnar í þessu máli. Það er með ólíkindum að hlusta á þetta.

Hv. þingmaður heldur því fram að frumvarpið sé svo gott og hafi lagast svo mikið þrátt fyrir að helsti sérfræðingur nefndarinnar hafi lýst því yfir að málið sé í raun enn þannig að öll hans gagnrýni standi óhreyfð. Hvað hefur þá gerst svona mikið?

Það fer óskaplega mikið í taugarnar á mér þegar stjórnarþingmenn tala um alla þá sem hafa selt sig út úr greininni sem eins konar bófa og ræningja. Ég veit eiginlega ekki hvernig á að taka þessu orðalagi. Hv. þingmaður talaði mjög mikið um þá sem hafa selt sig út úr greininni og ég spyr hvort hún tali ef til vill af eigin reynslu. Eru einhver dæmi sem hv. þingmaður getur nefnt okkur um aðila sem hafa selt sig út úr greininni? Svo virðist sem þetta sé þingmanninum mjög ofarlega í huga.

Mig langar líka að minna þingmanninn á að það hefur komið fram núna að margir aðilar styðja aðgerðir útgerðarmanna. Formaður kjaranefndar sjómanna hefur meðal annars komið fram í fjölmiðlum og lýst því yfir að sjómenn styðji aðgerðir útgerðarmanna af því að þeir skilji þær. Fjölmennur fundur sjómanna og fiskverkafólks í Vestmannaeyjum sendi frá sér stuðningsyfirlýsingu við aðgerðirnar. Það er ekki vegna LÍÚ, sem virðist vera einhvers konar grýla í augum þingmannsins og fleiri þingmanna, heldur átta þessi samtök og þetta fólk sig á því að vegið er að störfum þeirra, ekki síður en þeim fyrirtækjum sem útgerðarmenn eru að reyna að reka.

Það hlýtur að vera hægt að kalla eftir því að hv. þingmaður horfi á málið í víðara samhengi en að tala eins og það séu einhverjir örfáir stjórnendur í LÍÚ sem ráða þarna ferðinni.