140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég hef haft uppi fleiri frasa í þessum málum en stjórnarandstaðan. Ég held að hún megi eiga alla þá frasa sem hún hefur viðhaft í málflutningi sínum og líka hinir sem hafa verið með hræðsluáróður um að allt fari til fjandans við þetta. Þeir frasar hafa algjörlega gjaldfellt sig. Menn hafa skotið sig í lappirnar og hefur það ekki verið til sóma fyrir þá sem hafa haldið uppi þeim málflutningi.

Já, ég tala af eigin reynslu. Ég hef búið á Vestfjörðum í 54 ár og horft upp á breytingarnar í kvótakerfinu alveg frá því að ég byrjaði að hafa afskipti af verkalýðsmálum þegar ég var þrítug þannig að ég þekki þetta mætavel. Ég hef horft á fólk hrökklast úr heimabyggð sinni vegna þessa kerfis. Það þarf enginn að segja mér neitt um það hver áhrifin hafa verið á byggðirnar.

Slæm staða sjávarútvegsfyrirtækja í dag er umhugsunarverð. Ekki er það núverandi ríkisstjórn að kenna. Ég horfði á (Gripið fram í: Hún er slæm …) Twitter nýlega og þar voru viðtöl við forsvarsmenn Vestmannaeyjabæjar í útgerð og bæjarstjóra. Þar kom fram að myljandi uppgangur væri í Vestmannaeyjum. Ég hugsaði: Gott. En ætli þeir haldi að þetta fréttist ekki til meginlandsins? Sem betur fer er myljandi uppgangur þar og það er því ekki fallegur leikur að hræða fólkið sitt með því að segja að allt fari til fjandans ef þessi sanngjarna auðlindarenta verður borguð til samfélagsins.

Við þurfum öll að standa saman undir þessu samfélagi og þá eiga þeir sem hafa breiðari bökin að leggja sitt af mörkum en ekki bara þeir sem verr eru staddir. Nú er kominn tími til að útgerðin í þessu landi, sem stendur ágætlega, borgi mjög sanngjarna auðlindarentu til samfélagsins og kveinki sér ekki undan því. [Kliður í þingsal.] (REÁ: … ekki enn búin að ákveða sig.)