140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að það liggur vel á hv. þingmönnum. (Gripið fram í.) Byggðarlögin hafa farið halloka vítt og breitt um landið, hvort sem þau eiga allt sitt undir sjávarútvegi eða einhverju öðru, eins og landbúnaði. Árinni kennir illur ræðari en hverjir hafa borið ábyrgð á byggðastefnu í landinu síðustu 20 árin? (Gripið fram í.) Alveg rétt, er það ekki flokkur hv. þingmanns, Framsóknarflokkurinn? Ég held að hann mætti hysja upp um sig buxurnar og fara að hugsa um byggðir landsins með öðrum hætti en gert hefur verið síðustu 20 árin. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: … gera betur.)

Svarið við því hvort ég hafi selt frá mér aflaheimildir er: Nei, vegna þess að ég hef aldrei nokkurn tímann átt aflaheimildir. Ég hefði gjarnan viljað vera sjómaður ef ég hefði átt tök á því. Ég er komin af sjómönnum, fósturfaðir minn er sjómaður og faðir minn, sem er látinn, var sjómaður svo ég á sterkar rætur í sjómannsfjölskyldu á Vestfjörðum og er stolt af því.