140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það að sérfræðingurinn sem hefur verið með okkur í vinnu nefndarinnar, Daði Már Kristófersson, telji að greinin standi ekki undir því veiðigjaldi sem verið er að ræða eftir þær breytingar sem orðið hafa.

Ég fullyrði að Daði Már Kristófersson hafði þau orð uppi í atvinnuveganefnd að greinin réði við þetta veiðigjald, en þar sem hann væri ekki pólitíkus væri það okkar þingmanna að ákveða hve hátt það ætti að vera. En greinin ræður við þetta veiðigjald eins og það liggur fyrir eftir breytingar. Þannig skildi ég sérfræðinginn Daða Má Kristófersson og stend við það.

Varðandi stéttarfélögin hafa þau í umsögnum sínum, t.d. ASÍ, talið að greinin stæði undir þessu veiðigjaldi. Varðandi rekstrarkostnað og laun vitum við að laun fara inn í þann kostnað sem er dreginn frá áður en til sérstaks veiðileyfagjalds kemur. Greinin getur því ekki falið sig á bak við það að hún geti ekki borgað starfsfólki sínu betri laun vegna þess að launakostnaður er dreginn frá áður en kemur til umframhagnaðar og greiðslu sérstaks veiðileyfagjalds.

Hefur greinin borgað fiskvinnslufólki svo há laun í gegnum tíðina? Menn eru duglegir að fela sig á bak við það að geta ekki staðið undir hærri launum. Ég held því að tími sé til þess kominn að menn hækki laun þess fólks sem skapað hefur forsendur þessarar greinar, bæði til sjós og lands. Menn borga þá lægra veiðigjald ef þeir hækka laun hjá sjómönnum og fiskverkafólki.