140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ágæta ræðu þar sem hann kom inn á mörg mikilvæg mál enda erum við að tala hér um grundvallaratriði sem snertir 35 þús. einstaklinga sem hafa lifibrauð sitt af því að vinna beint eða óbeint við íslenskan sjávarútveg. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um þau vinnubrögð sem eru viðhöfð hér í þessu máli. Við erum við að ræða um mögulegt veiðigjald sem útgerðin á að borga en á sama tíma vitum við ekki hvert framtíðarstarfsumhverfi greinarinnar verður vegna þess að það mál er enn til meðferðar í atvinnuveganefnd. Er boðlegt að við skulum vera að ræða þetta mál á meðan sú framtíðarsýn liggur ekki fyrir? Það er einfaldlega ekki hægt að eiga almennilega efnislega umræðu um þetta mál nema við vitum hver niðurstaðan verður er snertir framtíðarfyrirkomulag þessarar undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar.

Mig langar í annan stað að spyrja hv. þingmann hvaða áhrif hann telji þetta frumvarp, verði það að veruleika, munu hafa á virði Landsbanka Íslands sem mig minnir að sé að 85% leyti í eigu ríkisins. Ríkisstjórnin boðaði mjög metnaðarfulla fjárfestingaráætlun sem átti að stórum hluta að verða greidd með sölu á Landsbankanum og reyndar hinum viðskiptabönkunum líka eða einhverjum hluta. Hvað áhrif telur hann að þetta frumvarp, verði það að lögum, muni hafa á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum og hinum viðskiptabönkunum ef þetta gjald verður óhóflegt eins og stefnir í?