140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:36]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann kom víða við. Ég get vottað að það sem sagt er frá Grímsey er allt satt og rétt, þetta er einfaldlega veruleikinn eins og hann blasir við í þessum útverði Íslands í norðrinu sem raunar er bæjarhluti í sveitarfélaginu Akureyri. Þarna háttar þannig til að það þarf annaðhvort að fara með flugi eða skipi á milli hverfa í þessu sveitarfélagi. Þetta frumvarp hefur gríðarlega mikil áhrif þarna.

Varðandi spurninguna um Landsbankann er þetta sami vandinn og við er að glíma í málinu öllu, þessi sami tvískinnungur. Það mætti ætla að þeir sem hlutast til um málefni Landsbanka Íslands, ríkissjóður á hann að 87%, væru byrjaðir að búa sig undir samdráttinn sem mun leiða af þessu frumvarpi sem þeir eru að mæla fyrir um veiðileyfaskattinn. Það var raunar eftirtektarvert að horfa til þess hvernig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, sendi pillu á núverandi hæstv. fjármálaráðherra, Oddnýju Harðardóttur, þegar þessi mál komu upp. Þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gagnrýndi lokun þessara útibúa vísaði hann ábyrgðinni yfir á fjármálaráðherrann. Það virðast vera að koma upp fleiri og fleiri mál í samskiptum þessara tveggja stjórnarflokka þar sem þeir koma erfiðu hlutunum yfir á samherja sína í hinum flokknum.

Þetta sá maður gerast í aðdraganda þess að menn gáfust upp á fiskveiðistjórnarfrumvörpunum 2010 og 2011 og vonandi er þetta bara ávísun og merki um að núverandi stjórnarflokkar ætli sér að draga í land þau ófremdaráform sem birtast okkur í því frumvarpi sem við erum hér að ræða.