140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum nú lesið þá ræðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem flutt var á sjómannadeginum þar sem hæstv. ráðherra þakkaði sjómönnum fyrir að hafa fórnað launum sínum eða sjómannaafslættinum til að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti. Kannski hefðu aðrar stéttir átt að gera slíkt hið sama. Hæstv. ráðherra beitti jafnvel sömu kúnstum þar og þeir sem hv. þingmaður nefndi áðan, þegar ráðherrann gaf í skyn að mögulega væri hægt að setja sjómannaafsláttinn aftur á síðar. Hann vísaði því til framtíðar og næsta ríkisstjórn þarf þá væntanlega að efna það loforð eða það sem ráðherrann gaf í skyn með sjómannaafsláttinn.

Margir hafa tekið kipp hringinn í kringum landið út af þessu ástandi og í dag var á netinu frétt af fjölmennum fundi í Vestmannaeyjum þar sem sjómenn og landverkafólk kom saman og efndi til fundar til að mótmæla fyrirliggjandi frumvörpum. Síðan kemur það líka í ljós að sjómannasamtökin standa með útgerðarmönnum, eða í það minnsta hefur formaður kjaranefndar samtakanna stigið fram og sagt að þau styðji þær aðgerðir útvegsmanna að halda flotanum í landi til að sýna samstöðu. Það segir okkur, er það ekki, hv. þingmaður, að sjómenn, landverkafólk og allir aðrir sem hafa beina og óbeina atvinnu af sjávarútveginum óttast verulega um sinn hag. Það er sá ótti sem okkur ber að reyna að eyða og ýta til hliðar með öllum ráðum. Það gerum við eingöngu með því að reyna að ná hér eins breiðri sátt og hægt er um sjávarútvegskerfi framtíðarinnar.